Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2017

Sniðugur?

 

 

Ég held að það sé sjálfri mér hættulegt hvað ég er sniðug.

Sérstaklega í þau skipti sem ég er sniðug fyrir framan fólk sem kann ekki að meta það.

Þá held ég að ég sé í bráðri lífshættu.

Að vera fyndinn fyrir framan fólk sem hefur ekki smekk fyrir húmor er nefninlega hættulegt.

En ég held það sé líka hættulegt að geta ekki hlegið. Ég kannast við mann sem kvelst líkamlega og andlega við að halda inní sér hlátri þegar einhver segir eitthvað fyndið því hann vill ekki gera viðkomandi það til geðs að vökva húmor-egóið hans með því að hlæja.

Það er örugglega óþægilegt. Kannski eins og að halda inní sér hnerra meðan einhver er að kitla mann á iljunum.

Einu sinni var ég einmitt voðalega sniðug og potaði upp í mann sem var að geyspa. En strax og hann var búinn að geyspa og á meðan ég var enn með fingurinn í munninum hans þurfti hann að hnerra og beit fast í puttann á mér.

Þá hló ég og grét á sama tíma á meðan hann skammaði mig fyrir að hafa skemmt hnerrann hans.

Einu sinni var ég svo sniðug að Þórhallur hótaði að tala aldrei við mig aftur nema að ég hætti að vera fyndin því að hann var næstum kafnaður. Hann gleymir nefninlega alveg öndunartækninni þegar hann hlær mikið og byrjar að hlaupa um hundfúll meðan hann reynir að hætta að hlæja. 

Það var erfitt að skýra það út fyrir fólki í Mjóddinni, eitt skiptið sem ég gleymdi mér og sagði eitthvað sniðugt, afhverju hann væri að veifa höndum og berjast við að ná andanum á meðan ég Flóki og Hörður biðum eins róleg og við gátum þangað til hann næði sér. 

Flóki fær alltaf hiksta ef hann hlær mikið.. og þegar hann fær hiksta þarf hann oftast að gubba.. Svo hljóðin sem koma útúr honum ef hann fær hláturskast eru ónáttúruleg og væri hægt að nota við endurgerð the Exorcist. Svo ég má heldur ekki vera mikið sniðug í kringum hann.

Það virðist bara of oft ekkert vera neitt sérstaklega sniðugt að vera sniðugur.

Nema maður sé John Cleese eða Karl Pilkington..

 


Íþróttir

Ég spurði Flóka hvað hefði verið skemmtilegast við skóladaginn.
"Íþróttir" svaraði hann.
"En ég hélt það hafði verið sund?"sagði ég
"Það voru íþróttir"sagði hann á móti.
"Máttirðu fara í íþróttir með engin íþróttaföt?"spurði ég
"Nei, ég var bara að spila mikadó við stelpu sem var heldur ekki með íþróttaföt"

Mikadó er asnalegt spil. Sérstaklega fyrir einhvern eins og mig sem hefur mínus 0,7 í fínhreyingum og samhæfni.
Samt get ég borðað með prjónum. Ég get haldið á tveimur prjónum í einni hendi og étið sushi en ekki haldið á einum prjóni í sitthvorri hendinni og búið til vettling.
Ég er samt frekar klaufaleg við það að nota prjóna til að borða með. Allavega miðað við fólk sem elst up við að nota þá.
Hugsa að það fólk gæti sennilega prjónað peysu úr spaghettí með tvo prjóna í einni hendi.

Ætli einhver hafi einhvertímann prufað að prjóna eitthvað úr spaghetti?

Væri það ekki frekar artí á matseðli? Kjúklingaleggir í spaghetti sokkum?

Hvað veit ég samt. Ég finn enga lykt og ég borða ekki spaghettí. Finnst það of bragðlaust og slímugt. 
Mamma beit einu sinni snigil í sundur. Hún ætlaði ekki að gera það en hann var að vandræðast á hundasúru sem hún ætlaði að éta. Hann var víst einstaklega slímugur.

Geta samt ekki sniglar lifað af svona helmingaskipti og orðið að tveimur? 
Ég er fegin að það sé ekki svoleiðis með manneskjur. Væri nett krípí að sjá kannski bara eintóman neðri hlutann á manneskju röltandi um.

Það væri líka eiginlega ómögulegt fyrir þann helming að gera margt.. nema kannski steppdans.

En mamma borðar held ég allavega ekki lengur hundasúrur nema grandskoða þær fyrst.

Og ég var kát að Flóka hafi loksins þótt gaman í íþróttatíma.


Súper

Oj bara hvað dagurinn er lengi að líða.

Þegar dagurinn er svona lengi að líða er nánast eins og maður ætti að geta gert meira, horft á feiri bíómyndir eða lesið lengur i bók, lagt sig jafnvel.

En nánast undantekningalaust þegar dagurinn er svona lengi að líða þá nenni ég engu.

Ég sit og fylgist með hversu hægt mínúturnar líða og hugsa um allt sem ég gæti verið að gera, svona fyrst dagurinn ætlar að haga sér svona.

Þó einhver kæmi til mín og segði mér að ég gæti flogið, bara í dag, mundi ég ekki meika það. Fyrir utan þá er sjúklega kalt og ég á engin almenninleg kuldaföt.

Gæti ímyndað mér að það sé líka hundleiðinlegt að fljúga í kuldagalla.

Ég fór einu sinni á fjórhjóli út í búð og tók í misgripum hjálm með engu gleri.. Það var viðbjóður, mér varð svo kalt og gat varla horft fram fyrir mig og samt var ég bara á þrjátíu..
Þá var heldur ekki svona kalt. En það var reyndar dembandi rigning.

Ég mundi samt frjósa í framan ef ég færi eitthvað fljúgandi í dag.

Svo er líka skotveiði tímabilið byrjað.

Ég væri líka frekar til í að geta hlaupið jafn hratt og strútur.. segi ég sem dett þegar ég stend kyrr.

Kannski væri sniðugra að geta teleportað sig bara.. en hversu hratt mundi ég fitna ef ég þyrfti ekki einu sinni að labba inní eldhus og fá mér að éta.

Það er sennilega rosalega góð og gild ástæða fyrir því að ég er ekki ofurhetja.

 

 


Súkkulaði

Sennilega fátt eins klisjukenndara og að búa til nýtt blogg þegar maður er andvaka.

Nýtt og ferskt sem á sko að vera allt öðruvísi en hin en samt sem áður um sama efnið.

 

Það eiga víst flest allir að hafa átt þann draum að verða rithöfundar eða í það minnsta gefa út bók.

Ég var svo viss um að ég yrði rithöfundur. En ég var líka viss um að ég yrði söngkona, leikkona sem og listamaður og ljósmyndari. Ég ætlaði ekki að vera allt þetta í einu og breytti ég um skoðun til skiptis eftir því hvert hugur minn leitaði þá stundina.

En þannig er ég.

Eina mínútuna gæti ég ekki verið meira hætt að borða súkkulaði, það væri lífsins ómögulegt að vera ákveðnari í því en ég þegar ég tek mig til.. Og ég er rosalega ákveðin í nokkrar mínútur þangað til að einhver rök(leysa)sem ekki verður litið framhjá um hvers vegna ég ætti að fá mér súkkulaði skýtur upp kollinum og ég er farin út í búð.

Ég á nefninlega aldrei súkkulaði.

Ég kaupi súkkulaði og ét það allt og þá er það búið og ekkert súkkulaði lengur til. Ekki í heiminum samt, bara heima hjá mér..

Mér hefur sennilega sjaldan fundist mannkynið jafn merkilegt eins og þegar ég horfði á heimildarþátt um hvernig kakó er búið til.. Kakó er ávöxtur. Meira að segja ljótur appelsínugulur ávöxtur. Svo eru baunirnar teknar úr og þeim dreyft í box. Við taka þá nokkur stig gerjunar og það er þá sem þær fá þennan fallega brúna lit. 

Ég er full af fróðleik sem kemur mér að engum notum.
Nei annars, ég er að ljúga.
Ég næ rétt svo kannski einum fjórða af einhverskonar fróðleik.

Restin af því sem ég veit eða ætti að vita er í bendu og biðu einhverstaðar þar sem heilinn vill geyma stærðfræði og landafræði. Þar sem ég næ ekki í það.

En það er allt í lagi.

Ég veit þetta um kakó og ég veit líka að höfrungar eru actually ekki það næs lífverur. Þeir fremja morð og gera vafasama hluti við skjaldbökur.

Takk Snorri

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband