Omg

Ég er að reyna að muna afhverju ég gleymdi að blogga.

Það er ekki eins og ég sé stressuð að setja einhvern skandal í kosmosið þar sem enginn les bloggið mitt, nema ég.

En ég er reyndar alveg fáránlega kröfuharður lesandi. Og athyglisspanið mitt er í 0.5 af 100 mögulegum. Svo ef ég skrifa eitthvað sem er leiðinlegt þá nenni ég ekki að lesa það. Það væri frekar lélegt að valda eina lesandanum vonbrigðum. 

Af þvi að ég er lika mestmegnis ágæt flesta daga.Ég var einu sinni ekki ágæt. Og ef sú ég væri að lesa bloggið mitt væri mér slétt sama hvort ég væri að valda henni vonbrigðum eða ekki. 

I dag er ég miklu skárri sem mannvera. Núna ryksuga ég og vaska upp og þvæ þvott á venjulegum tímum eins og guð ætlaðist til. Ég meira að segja brýt saman þvottinn og læt hann alls ekki standa lengur en 4 daga á innisnúrunum. Ég held að guð hafi loksins ýtt á update á skjánum minum. Já ég skrifa guð með litlu "g" þvi ég stórefast að það sé nafnið sem mamma hans gaf honum við skírn. Ef svo er vona ég að honum hafi verið gefið seinna nafn. Nema það sé bara stytting af Guðmar.

Ég get verið anal með stafsetningu. Þá mína stafsetningu. Ég er fróðari manneskja en það að fara að dæma fólk fyrir stafsetningu. Ég er ekki endilega klár í stafsetningu en ég fer í mínus ef ég geri áberandi villur. En þá fæ ég líka einkaskilaboð frá mömmu sem bendir mér á að þarna sem ég setti venjulegt "i" ætti að vera "y". Þá er ég ekki endilega að segja að yfsilon sé verra af þvi ég kallaði hitt venjulegt. Þótt yfsilon sé frekar ófríður stafur og gerir allt sem hann getur til að villa um fyrir manni í stafsetningu. Ef Yfsilon væri manneskja væri hann einhversstaðar með samsærisblogg og álpappírshatt að reyna að telja fólki trú um að jörðin sé strútur.

Ég væri reyndar ekkert súr yfir því. Það er að segja ef jörðin væri strútur.  Ekki að Yfsilon væri manneskja.


Spoonerism

 

Mig langar aldrei í eh decor stöff, nema það sé kannski eitthvað jólaskraut. En aldrei eitthvað til að skreyta heima hjá mér. Hef lítið auga fyrir því. Flóki er að safna pop fígúrum og lego köllum og mér finnst það flott í glugga og í hillu.

En svo fór ég með mömmu í búð á Selfossi sem heitir Piers held ég og fann hlut sem ég var ástfangin af.

Mér leið eins og þetta væri ekki dauður hlutur heldur eitthvað sem ég væri að ættleiða og þyrfti á mér að halda.

Verst að ég hef ekki efni á að ættleiða og verð að sætta mig við að vera án hennar.

Það er enginn í mínu lífi sem ég gæti bent á þetta sem jólagjöf því það væri það frekasta sem ég gerði allavega þessa vikuna þar sem þetta kostar svo mikið.

ALlir hlutir sem ég hef elskað eru nytsamlegir og eitthvað sem ég nota reglulega. 

Gítarinn minn
Hljómborðið
Kindle-inn minn
myndavélin
Teikni og málningadót
og fullt af borðspilum..

Auðvitað er eitthvað fleira ég bara man ekki í augnablikimu meira en þetta og hef ekki eirð í mér að rifja upp.

Þetta er leiðinleg bloggfærsla. 

Hvað get ég gert til að gera hana skemmtilegri?

Fyrir mér verða hlutir að vera skemmtilegir. Það sem gerir mig glaða er að geta hlegið. Það sem getur dregið mig sem mest niður er fólk sem getur einhvernveginn ekki tekið því þegar maður vill hafa hress samskipti.

Ég er reyndar stundum svolítið too much. Mundi örugglega ekki höndla ef ég hitti sjálfa mig.

Ég held að það séu ekki það margir sem mundu höndla herbergi fullt af sjálfum sér. Allavega ekki ég.. Guffi bróðir mjög líklega samt. Hann er svo faránlega easy going.

Ég er svo hyper núna að ég nenni ekki einu sinni að lesa yfir það sem ég hef skrifað.
Það er örugglega hvort sem er svo ómerkilegt að ég mundi örugglega ákveða að birta það ekki. EN ég hef ekkert bloggað svo lengi að það er betra að setja eitthvað en ekkert... held ég.

En hér er mynd af óþarfanum sem mig langar í.

lg_silver-ornate-iguana-lizard-statue-sculpture


Svartur er ekki litur.. Svartur er skortur á endurvarpi

 

Flóki var að velta svartholi fyrir sér og afhverju það væri nefnt því nafni þar sem að það gæti ekki verið okkur sýnilegt vegna þeirrar ástæðu að svona hol sogar til sín allt ljós.

Maður sér jú aðeins liti þegar það er ljós í kringum þá. Þannig að ætli blindir séu í raun í betri tengslum við raunveruleikann? 

En ef svartur er ekki litur eins og Snorri bróðir heldur stíft og stöðugt fram, hvaða litur er þá svartur? Ef eitthvað er nægilega svart þá er það ósýnilegt því svartur sogar til sín ljós. Og þá sér maður ekkert. En hvernig er þá ekkert á litinn, Snorri, ef það er ekki svart?

Þessi færsla hefur alla burði til að detta í mjög misskilið rasista blogg. Ég er ekki rasisti. Bróðir minn er múslimi.

Ég lít á allt fólk jafnt og kann jafn illa við alla. Nema suma kann ég betur við en það er mest skyldu væntumþykja vegna skyldleika.

Synir mínir standa uppúr að sjálfsögðu og þrátt fyrir að hafa reynt að ákveða uppáhald þá er það ómögulegt því þeir eru báðir jafn yndislegir og jafn óþolandi svo ég elska þá alveg jafnmikið.

Svo eru það bræður mínir tveir sem ég ólst upp með. Get heldur ekki gert upp á milli þeirra því þeir eru báðir jafn skemmdir og ég.

Fólkið sem ég elska mest er svo gallað að ef það væri jólagjöf væri skilaröðin í Hagkaup í Skeifunni yfir göngubrúna og tæki næstu vinstri beygju til Kína.

Ég er ekki að dissa fólk, ég sjálf hefði ekki einu sinni ratað í búðir.

Ég held að án nokkurs vafa þá séu fullkomnustu verurnar á jarðríkinu dýr. Þá er ég ekki að meina að þær kosti mikla peninga, þó svo að það mundi líklegast kosta mig allan peningin sem ég á ekki til að redda mér pandabirni heim til mín.

En ég má ekki heldur vera með dýr heima hjá mér.
Það stendur í leigu samningnum.

Ef ljón eru rándýr þá væri hægt að segja að pandabjörn sé ódýr.. Ætli mannskepnan sé þá ekki fokdýr.. Þessi brandari var allavega ekki dýrari en 5 aurar.. Hann hefði líklegast ekki ratað í búðir frekar en ég. 

Góð sönnun afhverju ég fæst ekki einu sinni í Bónus.


Sniðugur?

 

 

Ég held að það sé sjálfri mér hættulegt hvað ég er sniðug.

Sérstaklega í þau skipti sem ég er sniðug fyrir framan fólk sem kann ekki að meta það.

Þá held ég að ég sé í bráðri lífshættu.

Að vera fyndinn fyrir framan fólk sem hefur ekki smekk fyrir húmor er nefninlega hættulegt.

En ég held það sé líka hættulegt að geta ekki hlegið. Ég kannast við mann sem kvelst líkamlega og andlega við að halda inní sér hlátri þegar einhver segir eitthvað fyndið því hann vill ekki gera viðkomandi það til geðs að vökva húmor-egóið hans með því að hlæja.

Það er örugglega óþægilegt. Kannski eins og að halda inní sér hnerra meðan einhver er að kitla mann á iljunum.

Einu sinni var ég einmitt voðalega sniðug og potaði upp í mann sem var að geyspa. En strax og hann var búinn að geyspa og á meðan ég var enn með fingurinn í munninum hans þurfti hann að hnerra og beit fast í puttann á mér.

Þá hló ég og grét á sama tíma á meðan hann skammaði mig fyrir að hafa skemmt hnerrann hans.

Einu sinni var ég svo sniðug að Þórhallur hótaði að tala aldrei við mig aftur nema að ég hætti að vera fyndin því að hann var næstum kafnaður. Hann gleymir nefninlega alveg öndunartækninni þegar hann hlær mikið og byrjar að hlaupa um hundfúll meðan hann reynir að hætta að hlæja. 

Það var erfitt að skýra það út fyrir fólki í Mjóddinni, eitt skiptið sem ég gleymdi mér og sagði eitthvað sniðugt, afhverju hann væri að veifa höndum og berjast við að ná andanum á meðan ég Flóki og Hörður biðum eins róleg og við gátum þangað til hann næði sér. 

Flóki fær alltaf hiksta ef hann hlær mikið.. og þegar hann fær hiksta þarf hann oftast að gubba.. Svo hljóðin sem koma útúr honum ef hann fær hláturskast eru ónáttúruleg og væri hægt að nota við endurgerð the Exorcist. Svo ég má heldur ekki vera mikið sniðug í kringum hann.

Það virðist bara of oft ekkert vera neitt sérstaklega sniðugt að vera sniðugur.

Nema maður sé John Cleese eða Karl Pilkington..

 


Íþróttir

Ég spurði Flóka hvað hefði verið skemmtilegast við skóladaginn.
"Íþróttir" svaraði hann.
"En ég hélt það hafði verið sund?"sagði ég
"Það voru íþróttir"sagði hann á móti.
"Máttirðu fara í íþróttir með engin íþróttaföt?"spurði ég
"Nei, ég var bara að spila mikadó við stelpu sem var heldur ekki með íþróttaföt"

Mikadó er asnalegt spil. Sérstaklega fyrir einhvern eins og mig sem hefur mínus 0,7 í fínhreyingum og samhæfni.
Samt get ég borðað með prjónum. Ég get haldið á tveimur prjónum í einni hendi og étið sushi en ekki haldið á einum prjóni í sitthvorri hendinni og búið til vettling.
Ég er samt frekar klaufaleg við það að nota prjóna til að borða með. Allavega miðað við fólk sem elst up við að nota þá.
Hugsa að það fólk gæti sennilega prjónað peysu úr spaghettí með tvo prjóna í einni hendi.

Ætli einhver hafi einhvertímann prufað að prjóna eitthvað úr spaghetti?

Væri það ekki frekar artí á matseðli? Kjúklingaleggir í spaghetti sokkum?

Hvað veit ég samt. Ég finn enga lykt og ég borða ekki spaghettí. Finnst það of bragðlaust og slímugt. 
Mamma beit einu sinni snigil í sundur. Hún ætlaði ekki að gera það en hann var að vandræðast á hundasúru sem hún ætlaði að éta. Hann var víst einstaklega slímugur.

Geta samt ekki sniglar lifað af svona helmingaskipti og orðið að tveimur? 
Ég er fegin að það sé ekki svoleiðis með manneskjur. Væri nett krípí að sjá kannski bara eintóman neðri hlutann á manneskju röltandi um.

Það væri líka eiginlega ómögulegt fyrir þann helming að gera margt.. nema kannski steppdans.

En mamma borðar held ég allavega ekki lengur hundasúrur nema grandskoða þær fyrst.

Og ég var kát að Flóka hafi loksins þótt gaman í íþróttatíma.


Súper

Oj bara hvað dagurinn er lengi að líða.

Þegar dagurinn er svona lengi að líða er nánast eins og maður ætti að geta gert meira, horft á feiri bíómyndir eða lesið lengur i bók, lagt sig jafnvel.

En nánast undantekningalaust þegar dagurinn er svona lengi að líða þá nenni ég engu.

Ég sit og fylgist með hversu hægt mínúturnar líða og hugsa um allt sem ég gæti verið að gera, svona fyrst dagurinn ætlar að haga sér svona.

Þó einhver kæmi til mín og segði mér að ég gæti flogið, bara í dag, mundi ég ekki meika það. Fyrir utan þá er sjúklega kalt og ég á engin almenninleg kuldaföt.

Gæti ímyndað mér að það sé líka hundleiðinlegt að fljúga í kuldagalla.

Ég fór einu sinni á fjórhjóli út í búð og tók í misgripum hjálm með engu gleri.. Það var viðbjóður, mér varð svo kalt og gat varla horft fram fyrir mig og samt var ég bara á þrjátíu..
Þá var heldur ekki svona kalt. En það var reyndar dembandi rigning.

Ég mundi samt frjósa í framan ef ég færi eitthvað fljúgandi í dag.

Svo er líka skotveiði tímabilið byrjað.

Ég væri líka frekar til í að geta hlaupið jafn hratt og strútur.. segi ég sem dett þegar ég stend kyrr.

Kannski væri sniðugra að geta teleportað sig bara.. en hversu hratt mundi ég fitna ef ég þyrfti ekki einu sinni að labba inní eldhus og fá mér að éta.

Það er sennilega rosalega góð og gild ástæða fyrir því að ég er ekki ofurhetja.

 

 


Súkkulaði

Sennilega fátt eins klisjukenndara og að búa til nýtt blogg þegar maður er andvaka.

Nýtt og ferskt sem á sko að vera allt öðruvísi en hin en samt sem áður um sama efnið.

 

Það eiga víst flest allir að hafa átt þann draum að verða rithöfundar eða í það minnsta gefa út bók.

Ég var svo viss um að ég yrði rithöfundur. En ég var líka viss um að ég yrði söngkona, leikkona sem og listamaður og ljósmyndari. Ég ætlaði ekki að vera allt þetta í einu og breytti ég um skoðun til skiptis eftir því hvert hugur minn leitaði þá stundina.

En þannig er ég.

Eina mínútuna gæti ég ekki verið meira hætt að borða súkkulaði, það væri lífsins ómögulegt að vera ákveðnari í því en ég þegar ég tek mig til.. Og ég er rosalega ákveðin í nokkrar mínútur þangað til að einhver rök(leysa)sem ekki verður litið framhjá um hvers vegna ég ætti að fá mér súkkulaði skýtur upp kollinum og ég er farin út í búð.

Ég á nefninlega aldrei súkkulaði.

Ég kaupi súkkulaði og ét það allt og þá er það búið og ekkert súkkulaði lengur til. Ekki í heiminum samt, bara heima hjá mér..

Mér hefur sennilega sjaldan fundist mannkynið jafn merkilegt eins og þegar ég horfði á heimildarþátt um hvernig kakó er búið til.. Kakó er ávöxtur. Meira að segja ljótur appelsínugulur ávöxtur. Svo eru baunirnar teknar úr og þeim dreyft í box. Við taka þá nokkur stig gerjunar og það er þá sem þær fá þennan fallega brúna lit. 

Ég er full af fróðleik sem kemur mér að engum notum.
Nei annars, ég er að ljúga.
Ég næ rétt svo kannski einum fjórða af einhverskonar fróðleik.

Restin af því sem ég veit eða ætti að vita er í bendu og biðu einhverstaðar þar sem heilinn vill geyma stærðfræði og landafræði. Þar sem ég næ ekki í það.

En það er allt í lagi.

Ég veit þetta um kakó og ég veit líka að höfrungar eru actually ekki það næs lífverur. Þeir fremja morð og gera vafasama hluti við skjaldbökur.

Takk Snorri

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband